Íslandmeistaramót í Hnefaleikum 2019 var haldið í nýjum húsakynnum Hnefaleikafélags Reykjaness nú fyrr í kvöld.
Ein undanviðureign var á mótinu og var hún haldin kl.11 eftir að dregið hafði verið í flokkinn. Þar drógust saman Fannar Þór Ragnarsson frá HR og Ásgrímur Egilsson frá HFK í -64kg flokki karla. Ágrímur stóð uppi sem sigurvegari á einróma dómaraákvörðun og fór því áfram í úrslit.
Úrslit mótsins fóru fram kl.18.
Fyrst var keppt í -81kg ungmennaflokki karla. Þar öttu kappi Karl Ívar Alfreðsson frá HAK og David Sienda frá HFR. David sigraði þar í öruggum leik.
Þá fór fram leikur í -60kg flokki kvenna. Þar fór Guðný Bernhard frá Æsi gegn Tinnu Von Waage frá HFK. Guðný sigraði þar á einróma dómaraákvörðun eftir harða rimmu.
Næst var keppt í -75kg flokki karla. Þar keppti Bjarni Ottósson frá HR gegn Arnóri Má Grímssyni frá HFH. Eftir mikinn dans fór Arnór með sigur á einróma dómaraákvörðun.
Fyrsti leikur eftir hlé var -75kg flokkur kvenna. Þar öttu kappi Kristín Sif Björgvinsdóttir frá HR og Hildur Ósk Indriðadóttir frá HFR. Hildur kom mjög sterk inn og sýndi að hún á heima í hringnum en þó ekki nóg til að vinna hina feykisterku Kristínu Sif sem stóð uppi sem sigurvegari á einróma dómaraákvörðun.
Næstsíðasti leikur mótsins var í -81kg flokki karla. Þar keppti Elmar Gauti Halldórsson frá HR gegn Hróbjarti Trausta Árnasyni frá HFK. Leikurinn var harður og feykijafn en sigurinn féll til Elmars Gauta á klofinni dómaraákvörðun.
Lokaleikur mótsins var síðan úrslit í -64kg flokki karla frá því um morguninn. Alexander Puchkov frá HR fór þar gegn Ásgrími Egilssyni frá HFK sem sigraði undanleikinn um morguninn. Leikurinn var hraður og skemmtilegur og að lokum fór sigurinn til Ásgríms á einróma dómaraákvörðun.
Í lok móts var bæði valinn leikur mótsins og Bensabikarinn var afhentur þeim boxara sem talinn var hafa skarað fram úr á mótinu. Lokaleikur kvöldsins í -64 kg fl karla var valinn leikur mótsins og Arnór Már Grímsson fékk afhendan Bensabikarinn til varðveislu.