Á ársþingi Hnefaleikasambandsins þann 25. maí 2024 heiðari stjórnin þá Sigurjón Gunnsteinsson, Ólaf Guðlaugsson og Unnar Karl Halldórsson fyrir óeigingjörn og góð störf í þágu hnefaleika í gegnum árin.
Það var snemma á tíunda áratug síðustu aldar að menn sem höfðu verið við iðkun annara íþrótta fóru að gera sér gælt við hina göfugu list hnefaleika.
Fyrir þeim hópi fór Sigurjón Gunnsteinssson sem hafði á yngri árum verið afreksmaður í karate og rak á þeim tíma líkamsræktarstöð undir merkjum Gallerí Sports og fóru hnefaleikaæfingar fram fyrir opnum tjöldum, enda var markmiðið á þeim tíma soldið að taka "púlsinn" á því hversu hart yfirvöld myndu ganga í því að framfylgja lögum sem sett voru árið 1956 sem bönnuðu hnefaleika.
Ekki voru afskipti hins opinbera neitt merkjandi og það gaf fyrirheit um að hugsanlega fengi íþróttinn áheyrn á Alþingi og tóku Alþingismennirnir þáverandi Ingi Björn Albertsson og Kristinn H. Gunnarsson málið upp á sína arma árið 1993 og lögðu inn þingsályktunartillögu sama ár sem ekki fékk hljómgrunn á Alþingi.
Þetta sama ár stigu tveir Suðurnesjamenn Guðjón Vilhelm og Benedikt Oddsson (sem Bensabikarinn er kenndur við) fram opinberlega og sýndu hnefaleika fyrir opnum tjöldum á skemmtistaðnum Þotunni í Keflavík. Þegar þarna var komið, var að myndast ákveðinn kjarni af fólki sem vildi láta reyna á löggjöfina til hins ítrasta, fólki sem hafði sterka réttlætiskennd og átti síðar eftir að vinna gríðarlega mikið og náið saman.
Það er svo árið 1997 að Hnefaleikafélag Reykjavíkur er opnað fyrir má segja opnum tjöldum að samstarf Sigurjóns, Guðjóns og Ólafs hefjist fyrir alvöru. Til að sýna fram á fáránleika bannsins og haftanna sem íþróttin var í, var ákveðið að stíga stórt skref og sýna hnefaleika í beinni útsendingu og var það gert í samvinnu við Stöð2 í þættinum Ísland í dag um leið og Bubbi Morthens kynnti nýútkomna plötu.
Í þeirri viðureign áttust við Sigurjón og Fjölnir Þorgeirsson.
Yfirvöldum var ekki skemmt og fór það svo að menn voru sakfelldir alla leið upp í Hæstarétt fyrir brot á lögum um bann við hnefaleikum og í framhaldi af útsendingunni, mætti her lögreglumanna og réðst til inngöngu inn í aðstöðu Hnefaleikafélags Reykjavíkur í Dugguvogi 19 og lagði hald á allan búnað félagsins og lokaði starfseminni.
Meira segja gekk hið opnbera svo langt í sínum aðgerðum að æfingahringur félagsins var sagaður í sundur með vélsög. Það er svo ekki fyrr en árið 1999 að búnaðurinn fékkst afhentur aftur að hluta, fyrir utan hringinn sem var sagður gerður upptækur, þar sem hann var sagaður í sundur.
Lögreglumenn gerðu sér svo ferðir í verslanir sem seldu búnað tengdum hnefaleikum, s.s. hanska og sippubönd um sumstaðar var verslunareigendum hótað upptöku á búnað yrði hann ekki fjarlægður úr verslunum, þar sem lögin segja orðrétt, "Bönnuð er sala og notkun hnefaleiksglófa og annarra tækja, sem ætluð eru til þjálfunar hnefaleikara" Slík var harkan í aðgerðum hins opinbera að í raun vann það með okkur í þeirri baráttu sem við vorum í að að sýna á fáránleikan því fjölmiðar þess tíma voru mjög duglegir í að birta fréttir af baráttunni fyrir boxinu. Þess má geta að í framhaldi af lokun á aðstöðu Hnefaleikafélags Reykjavíkur efndi Stöð 2 til símakosningar meðal almennings þar sem hátt í 9.000 manns viðruðu skoðun sína á málinu og töldu 60% þeirra að afnema bæri bannið.
Toppnum á þessu rugli var síðar náð árið 1999 þegar lögregla mætti í málningarvöruverslun Þorsteins Gíslasonar (Steina Box) þá 85 ára gamall og tók af honum skýrslu vegna kennslubókarbókar í hnefaleikum sem hann gaf út árið 1948 og var endurútgefin árið 1993 og var til sölu í málningarbúðinni.
Þegar þarna er komið var orðin mikil samstaða innan hópsins um að láta reyna enn frekar á það að hnekkja banninu. Upphófst mikil fundarherferð á vegum Ólafs, Sigurjóns og Guðjóns innnan raða þingmanna og sem fóru markvisst á fundi þingmanna og ráðherra allra flokka til að afla málstaðnum stuðnings.
Auðvitað voru viðbrögð kjörinna fulltrúa á ýmsa vegu, flestir tóku okkur vel, en á mörgum stöðum mættum við mikilli andstöðu og fordómum.
Við þetta varð úr að þremenningarnir ákváðu ásamt fleirra fólki að snúa bökun enn þéttar saman og opna nýjan hnefaleikaklúbb og var honum fundinn húsnæði í gamla Rafha húsinu í Hafnarfirði og vorum við mjög heppnir þar sem plássið hýsti áður líkamsræktarstöð og var þó nokkuð af innviðum til staðar sem flýtti mjög fyrir opnun.
Ákveðið var að notast við nafn á stöðina sem hafði skírskotun til hnefaleika en ekki hreinrækaktað hnefaleikafélags, reynslunni ríkari frá fyrri árum.
Fékk stöðin nafnið Boxing Athletic Gym og búið til æfingakerfi sem var kallað "Fitnessbox" til þess eins að tryggja að búnaður og aðstaða fengi að vera í friði. Við æfingahring félagsins hékk m.a. skilti þar sem tekið var skýrt fram að hringurinn væri eingöngu ætlaður til æfinga í glímu.
Ekki leið á löngu þar til fulltrúar yfirvalda mættu með lögreglu og tóku út starfsemina og var Ólafur á endanum kærður fyrir brot á lögum um bann við hnefaleikum eftir að hafa verið mánaðarlegur gestur á lögreglustöðinni þar sem ekki var ætlunin að leyfa okkur að starfa í friði, því stöðin var nærri því pakkfull frá opnun til lokunar, svo vinsælt var sportið á þessum tíma. Á endnum var þó Ólafur sýknaður og er sýknubréfið í ramma.
Þar sem hópurinn í kringum Guðjón Vilhelm var að stærstum hluta skipaður fólki frá Suðurnesjum, brá Guðjón á það ráð að kaupa bara eitt stykki rútu sem bauð upp á hópferð á æfingar nærri daglega.
Slík var samheldnin...slíkur var andinn.
Við opnun í Hafnarfirði og náið samstarf við Suðurnesjamennina varð til kjarni af fólki sem æfði mjög vel og mikið og var komið hungur í hópinn að láta reyna á hæfnina. Á þessum tíma fór Guðjón til Bandaríkjanna og tókst á einhvern ótrúlegan hátt að komast að í Ólympíuakdameíunni hjá Ameríska hnefaleikasambandinu og útskrifaðist þar fyrstur íslendinga með þjálfaragráðu. Á þeim tíma kynnist hann Bandaríkjamanni og margföldum Golden Gloves meistara að nafni Chuck Horton.
Mikill vinskapur tókst með þeim og hafði Chuck mikinn áhuga á þessu "óréttlæti" sem við vorum beitt og kom hann til landsins og hélt námskeið ásamt Bill Plum, margreyndum hnefaleikaþjálfara og úr varð á endanum að okkur er boðið með okkar lið til Bandaríkjanna að keppa enda töldu þeir að við stæðum ekkert síður tæknilega en þeir en okkur skorti eðlilega keppnisreynslu. Við förum svo með hátt í tuttugu manna hóp til Duluth í Minnesota þar sem við kepptum við lið heimamanna í tvígang ásamt því að æfa með heimamönnum. Var þessi ferð mynduð í bak og fyrir fyrir sjónvarpsstöðina Skjá 1 og sýnd í 4 þátta röð þar sem einn núverandi forsetaframbjóðandi sá um þáttastjórnun.
Við þessa ferð varð til mikið og gott samstarf sem átti eftir að vara lengi og fóru m.a. Þórður Sævarsson og Skúli Ármannsson, fyrsti atvinnumaður okkar í æfingabúðir hjá þessum vinaklúbb okkar og kepptu síðar undir merkjum heimamanna.
Þegar þarna er komið við sögu var farinn að myndast mikill þrýstingur á stjórnvöld að skoða málið af alvöru og að undirlagi Sigurjóns sem fékk Gunnar I. Birgisson þingmann og fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs til að fara fram með frumvarp sem heimilaði íþróttina á nýjan leik. Gunnar fór með frumvarpið fyrir þingið á aldamótaárinu árið 2000 en var það fellt í annari umræðu og þar með í annað skipti frá árinu 1993.
Gunnar gafst ekki upp og lagði frumvarpið nærri óbreytt fyrir á næsta löggjafarþingi og upphófst þá einhverjar svakalegastu lotur af greinarskrifum, viðtölum og hverskyns áróðri okkar málstað til hagsbóta og voru þingpallar fylltir af okkar fólki meðan frumvarpið var til meðferðar. Svo kom stóri stóri dagurinn mánudaginn 11. febrúar árið 2002 að frumvarpið var samþykkt.
Við lögleiðinguna var eðlegt næsta skref að klúbbarnir tækju sér stöðu í sínum heimabyggðum og stofnuð var Hnefaleikanefnd á vegum ÍSÍ og áttu þar sæti allir fulltrúar starfandi hnefaleikafélaga.
Hnefaleikafélag Reykjaness opnaði fljótlega í Keflavík og Hnefaleikafélag Reykjavíkur var endurvakið í stærðar stöð í Faxafeni í Reykjavík og var auðvitað blásið til móta og eðlilegt að bjóða fyrstum, vinum okkar frá Bandaríkjunum og var sett upp risastórt boxkvöld í Laugardalshöllinni sem Hnefaleikafélag Reykjaness stóð fyrir þar sem yfir 5.000 manns mættu og var sýnt í beinni útsendingu í sjónvarpi.
Hnefaleikafélag Reykjavíkur fylgdi svo í kjölfarið með öðru risamóti þar sem við mættum liði frá Danmörku og þar mættu nærri 6.000 manns og keppnin sýnd í opinni dagskrá á Skjá Einum. Eitthvað fór þó fyrir brjóstið á forrystu ÍSÍ að á sama kvöldi og við mættum Dönum að sett var upp keppni samhliða boxinu í MMA enda höfðu þeir sem stóðu að slíkum æfingum hérlendis verið í hálfgerðum felum með þá iðju, rétt eins og við vorum á okkar bannárum en þeir reyndust okkur miklir bandamenn í okkar baráttu og okkur þótti ekkert eðlilegra en að vekja athygli á því. Eitthvað fór gjörningurinn öfugur í forrystu ÍSÍ og endaði með því að hnefaleikanefndin var leyst upp og nýtt fólk kom að starfinu.
Við þá breytingu kemur svo Unnar Karl Halldórsson inn í starfið sem hafði þá verið mjög virkur í starfi Hnefaleikafélags Reykjavíkur og urðu mannabreytingar í kjölfarið á rekstri Hnefaleikafélags Reykjavíkur, sem og Hnefaleikafélagi Reykjaness síðar meir. Stofnuð voru félög á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar var stofnað á grunni B.A.G klúbbsins úr Rafha húsinu.
Keppt var út um allar koppagrundir víðsvegar um landið og við flest tækifæri og fylgdu nokkur stærri mót í kjölfarið næstu ár þmt. landskeppni við Íra ásamt því að fyrstu Íslandsmótin fóru af stað fyrir fullum húsum og nærri undantekningalaust í beinni útsendingu sjónvarpsstöðvanna í umgjörð á heimsmælikvarða.
Sigurjón sagði skilið við hreyfinguna eftir langt og óeigingjarnt starf.
Guðjón Vilhelm snéri sér síðan alfarið að þjálfun næstu árin og tók síðar alþjóðleg dómararéttindi í atvinnumannahnefaleikum sem hann sinnir enn í dag.
Unnar Karl gegndi varaformennsku hjá HNÍ í næstum áratug, ásamt því að stýra þjálfun hjá HR, síðar Mjölni/HR í nærri 15 ár.
Ólafur tók að sér dómaramál fyrir hreyfinguna á Íslandi frá fyrsta degi og hefur dæmt yfir 1.600 viðureignir á mótum hér og erlendis og gengdi formennsku til tíu ára í hnefaleikanefnd ÍSÍ, eða allt þar til búið var að ganga frá stofnun sérsambandsins í náinni samvinnu við Unnar Karl en þeir ákváðu í sameiningu að gefa nýju fólki tækifæri á að spreyta sig fyrir um áratug og stigu sáttir frá borði.
Við sem erum hér nefndir erum allir afar stoltir af okkar framlagi til íþróttarinnar og ekki síst baráttunni fyrir tilverurétti hennar.
Við viljum henni vel og biðjum ykkur sem nú eruð við stýrið að hlúa að henni.
Frelsið til að fá stunda hnefaleika var ekki auðfengið, né heldur auðsótt.
Á mynd er Gunnar Guðjónsson (tekur á móti viðurkenningu fyrir hönd Unnars), Ólafur Guðlaugsson og Sigurjón Gunnsteinsson.
Commentaires