top of page
HNÍ

Hnefaleikafólk ársins 2024


Hnefaleikasamband Íslands hefur valið hnefaleikafólk ársins 2024, og að þessu sinni hlutu Elmar Gauti Halldórsson og Erika Nótt Einarsdóttir titilinn. Þessi viðurkenning er veitt þeim sem hafa skarað fram úr í hnefaleikum á árinu og er valið í höndum aðildarfélaga Hnefaleikasamband Íslands..

Bæði Elmar og Erika koma úr röðum Hnefaleikafélags Reykjavíkur. Þetta er í annað sinn sem bæði hljóta titilinn, þar sem Elmar var valinn árið 2023 og Erika árið 2022.



Elmar Gauti Halldórsson – Hnefaleikamaður ársins 2024

Elmar Gauti Halldórsson, 27 ára, hefur náð framúrskarandi árangri undanfarin ár bæði hérlendis og erlendis. Á árinu 2024 keppit hann 13 sinnum og sigraði 8 þeirra viðureigna. Meðal helstu afreka hans á árinu má nefna sigur í fjórðungsúrslitum á Dacal World Championships á Spáni, þar sem hann vann til verðlauna, fyrstur Íslendinga sem keppandi á alþjóðamóti í flokki fullorðinna en um er að ræða gríðarlega sterkt mót.

Elmar vann einnig gull á HSK Box Cup í A-flokki og silfur á Haringey Box Cup, stærsta hnefaleikamóti Englands, þar sem hann sigraði í undanúrslitum en tapaði í úrslitum. Auk þess keppti hann tvisvar á Icebox-mótum og sigraði í báðum viðureignum, ásamt því að verja Íslandsmeistaratitilinn með stæl í vor.

Elmar fór í sex keppnisferðir og tvær æfingaferðir erlendis á árinu, sem undirstrikar þá miklu vinnu og metnað sem hann hefur sýnt á því ári sem er að líða.. Hann er sannarlega vel að þessari nafnbót kominn og er fyrirmynd fyrir komandi kynslóðir í íþróttinni.



Erika Nótt Einarsdóttir – Hnefaleikakona ársins 2024

Erika Nótt Einarsdóttir, 18 ára, hefur æft hnefaleika frá unga aldri og staðið sig með glæsibrag. Á árinu 2024 keppti hún í 6 viðureignum, sigraði 3 þeirra, varð haustbikarmeistari og sigraði einn af tveimurviðureignum sínum á Icebox-mótum.

Erika gerði sér einnig lítið fyrir og braut blað í íslenskri hnefaleikasögu með því að vinna gullverðlaunum á Norðurlandamótinu, þar sem hún sigraði Arina Vakiili frá Svíþjóð. Þetta var í fyrsta skipti sem íslenskur keppandi vinnur gull á Norðurlandamóti.

Framundan er stórt ár fyrir Eriku, þar sem hún keppir í fyrsta sinn í flokki fullorðinna. Hún hefur þegar skipulagt æfingar í þremur mismunandi löndum til að undirbúa sig sem best. Erika hefur sett sér háleit markmið og er staðráðin í að leggja allt í sölurnar til að ná langt í greininni.

Erika hefur jafnframt verið hvatning fyrir ungar stúlkur sem vilja feta í hennar fótspor, og með sinni frammistöðu sýnir hún að allt sé mögulegt í hnefaleikum. Hún er virkilega flott fyrirmynd og vel að titlinum komin.



Hnefaleikasamband Íslands óskar þeim Elmari Gauta Halldórssyni og Eriku Nótt Einarsdóttur innilega til hamingju með valið og óskar þeim farsældar og áframhaldandi árangurs á komandi árum!





Comments


bottom of page