Norðurlandamót í Hnefaleikum árið 2025
- HNÍ
- Mar 25
- 2 min read
Íslenska landsliðið í hnefaleikum hélt til Noregs á Norðurlandamótið um helgina með fjóra keppendur. Erika Nótt Einarsdóttir og Nóel Freyr Ragnarsson sem unnu gull og silfur í fyrra í u19 ára flokki kepptu í fyrsta skipti í fullorðinsflokki (elite) og Björn Jónatan Björnsson og Ronald Bjarki Mánason kepptu í fyrsta skipti á Norðurlandamótinu í u19 ára flokki. Þetta er yngsti keppnishópurinn sem Ísland hefur sent á þetta feykisterka mót og þó að þeim hafi ekki tekist að landa sigri fékkst mjög góð og mikilvæg keppnisreynsla á hæsta stigi.

Fyrstur inn í hringinn fyrir hönd Íslands var Nóel Freyr Ragnarsson gegn Kouc Mayuom frá Danmörku í -70 kg flokki en þetta var fyrsta landsliðsverkefni Nóels í fullorðinsflokki (elite). Nóel byrjaði fyrstu tvær loturnar vel en Dananum tókst að vinna loturnar á sitt band er leið á loturnar. Kouc Mayuom sigraði viðureignina á einróma dómaraákvörðun en Nóel sýndi að hann á fullt erindi á þessu sviði og hefur tekið virkilega miklum framförum undanfarið. Daninn endaði á að sigra flokkinn og taka gullið með sér heim.

Á öðrum keppnisdegi var fyrstur inn fyrir Ísland Björn Jónatan Björnsson gegn Eliar Kolomoichenko frá Finnlandi í U19 -65 kg flokki en þetta var fyrsta landsliðsverkefni hjá Birni Jónatani. Bardaginn byrjaði vel og gerðist mikið hjá báðum aðilum, Björn Jónatan lenti þungum höggum og fékk á sig þung högg. Reynslumunurinn sýndi sig þegar fór að líða á bardagann en Björn Jónatan átti frábæra spretti og verður spennandi að sjá hann í næstu landsliðsverkefnum. Eliar vann svo flokkinn á endanum og var valinn besti hnefaleikarmaðurinn í ungmennaflokki karla. Björn Jónatan getur gengið stoltur frá borði eftir frammistöðuna sína gegn þessum hæfileikaríka mótherja.

Næstur inn í hringinn var síðan Ronald Bjarki Mánason en hann var einnig í sínu fyrsta verkefni með landsliði. Hann keppti við Rida Al-Tamimi í U19 -50 kg flokki og fékk virklega verðugt verkefni en Daninn situr í 5. sæti á heimslista í þeirra aldursflokki. Bardaginn fór vel af stað fyrir Ronald og var fyrsta lotan frekar jöfn heilt yfir en jafnt og þétt tók Rida yfir bardagann og sigraði á endanum á einróma dómaraákvörðun. Mjög flott frammistaða þrátt fyrir mikinn reynslumun og getum við verið stolt af okkar keppanda.

Síðasti keppandinn fyrir Ísland á þessu Norðurlandamóti var Erika Nótt Einarsdóttir gegn Anabelle Bruun frá Noregi í úrslitum -51 kg flokksins. Erika var einnig að þreyta sína frumraun í Elite-flokki með landsliðinu en Erika vann eftirminnilega fyrsta gull í sögu Íslands á mótinu í fyrra, þá í ungmennaflokki, og var hún mjög vel undirbúin fyrir þetta verkefni eftir langa æfingaferð erlendis. Bardaginn byrjaði vel og gekk fyrsta lota fram og til baka en Anabelle gerði vel í að aðlagast Eriku. Anabelle komst í góða forystu í annarri lotu og vann síðan þriðju lotu sannfærandi. Niðurstaðan var einróma sigur til Anabelle Bruun en hún var svo valin besti kvennaboxarinn að móti loknu og augljóst að andstæðingur Eriku var alvöru frumraun.

Keppnishópurinn að þessu sinni var sá yngsti í sögunni. Miðað við frammistöðu má með sanni segja að framtíðin sé björt hjá íslenska landsliðinu í hnefaleikum.

Allar myndir birtar með góðfúslegu leyfi frá Mána Hrafnssyni
Comentarios