top of page

KEPPENDUR

HLUTGENGI

Til þess að vera hlutgengur til keppni á mótum á vegum HNÍ eða af félagi innan þess verður viðkomandi að hafa náð þeim aldri sem tilgreindur er í keppnisreglum AIBA hverju sinni og vera í félagi innan vébanda HNÍ.

Auk þess þarf viðkomandi að hafa þátttökubók með keppnisleyfi í gildi og hafa gengist undir læknisskoðun skv. reglum þátttökubókarinnar.

ÞÁTTTÖKUBÓK

Í þátttökubók eru skráðar viðureignir keppanda ásamt grunnupplýsingum um hann, árlegri læknisskoðun hans og árlegri staðfestingu frá landssambandi.

Tvær mismunandi þátttökubækur eru í boði fyrir keppendur, þátttökubók frá HNÍ  og þátttökubók frá AIBA. Til þess að keppa á Íslandsmeistaramóti eða alþjóðlegum meistaramótum þarf viðkomandi að vera með AIBA þátttökubók. Þátttökubókin frá HNÍ er gjaldgeng á byrjendamótum og félagsmótum.

HNÍ þátttökubók geta allir þeir iðkendur fengið sem eru skráðir í og hafa æft hjá félagi innan vébanda HNÍ í a.m.k. 6 mánuði.

AIBA þátttökubók geta þeir iðkendur fengið sem uppfylla skilyrði fyrir HNÍ þátttökubók ásamt því að vera á fimmtánda (15) ári, með a.m.k. þriggja (3) ára samfellda búsetu á Íslandi og uppfylla öll þau skilyrði sem AIBA setur hverju sinni um gjaldgengi á þeirra mótum.

Í gjaldskrá HNÍ er að finna árgjald fyrir nýjar þátttökubækur og endurnýjun keppnisleyfis.

Nánar um þátttökubækur er að finna í Regluverki HNÍ grein 5.1.2.

LÆKNISSKOÐUN

Heilsufarslega hæfni skal athuga hvert ár. Engum keppanda skal heimilt að hefja leik án þess að heilsufarsleg hæfni hans hafi verið skráð í skráningarbók hans um keppnisþátttöku, en slíkar skráningar eru aðeins heimilar af viðurkenndum lækni. Mat á heilsufarslegri hæfni skal, ef því verður við komið, fela í sér eftirfarandi próf eða sambærileg:

  

  • Heildarlæknisskoðun með sérstakri áherslu á sjón og heyrn, jafnvægisskyn og taugakerfið.

  • Líkamlegar mælingar, þ.m.t. hæðarmæling og vigtun í það minnsta.

  • Taugafræðileg skoðun þ.m.t. heilalínurit.

  • Líffræðileg skoðun þ.m.t. blóð- og þvagsýnataka.

  • Röntgenmynd af höfði.

  • Hjartasjúkdómafræðileg skoðun þ.m.t. hjartalínurit.

  • Skoðun með tölvusneiðmyndun af höfði ef því verður við komið.

 

Læknisskoðun skal endurtaka a.m.k. einu sinni á ári og skal hún fela í sér a.m.k. efstu þrjá punkta hér að ofan. Keppandi sem er haldinn eða greinist með einhver af einkennum eða hvillum sem taldir eru upp í grein 5.1.6 í Regluverki HNÍ skulu ekki vera metnir hæfir til keppni. Keppandi sem er fertugur (40) eða eldri verður auk þess árlega að gangast undir læknisrannsókn með heilalínuriti (e. EEG).  Allir keppendur verða að gangast undir þess háttar rannsókn eftir hundraðasta hvern leik hver sem svo úrslitin urðu.  

Mótanefnd HNÍ getur krafist ítarlegri læknisskoðunar þegar þörf er talin á.

KEPPNISTÍMABIL

Keppnistímabilið er frá 1. september til 31. ágúst. Tímabilið skiptist í 2 helminga, fyrir og eftir 1.mars.

Leyfið gildir eitt keppnistímabil í senn. 1/9 –31/8, óháð því hvenær umsókn um leyfi fór fram.

FÉLAGASKIPTI

Félagaskipti eru heimil á tímabilinu 1. ágúst til 15. september ár hvert.  Félagaskipti eru einnig heimil hvenær sem er á árinu, komi formenn viðkomandi félaga sér saman um félagaskipti, þó aðeins einu sinni á hvorum helming keppnistímabils. Viðkomandi leikmaður þarf að vera skuldlaus og án annarra samninga við fráfarandi félag.  Félagaskipti skulu vera skrifleg. Félagaskipti ganga í gegn um leið og formaður HNÍ hefur staðfest skiptin.

bottom of page