top of page
LOGO.png

FRÉTTIR


Úrslitakeppni ÍM var haldin í dag í WCBA og voru sjö glæsilegar viðureignir.

Fyrsta viðureign var Mikael Hrafn (HR) og Ísak Guðnason (HFK) í -67kg flokki U19 karla en hann Mikael sigraði þessa viðureign á WO og var því krýndur Íslandsmeistari.


Önnur viðureign dagsins var Benedikt Gylfi (HFH) og Armandas Sangavicius (HFK) í -80kg U19 flokki karla. Báðir sýndu fram á glæsilega tækni en Armandas hafði yfirhöndina og tók því Íslandsmeistaratitilinn.


Zalmai Jasur (HFK) og Alexander Irving (GFR) í -67kg flokki Elite karla voru þeir þriðju til að stíga upp í hring og var þetta hörku viðureign. Alexander vann þessa viðureign á stigum og var krýndur Íslandsmeistari.


Þær Íris Daðadóttir (HR) og Hildur Ósk (HFR) í -70kg flokki Elite kvenna mættust í fjórðu viðureign dagsins og var gaman að sjá þessar flottu hnefaleikakonur mætast. Hún Íris sigraði þessa viðureign á stigum og var krýnd Íslandsmeistari.


Í fimmtu viðureign dagsins mættust þeir Björn Snævar (HFR) og Elmar Gauti (HR) í -80kg flokki Elite karla. Mjög spennandi viðureign en hann Elmar hafði yfirhöndina og sigraði viðureignina.


Sjötta viðureign dagsins var á milli þeirra Blazej Galant (GFR) og Þorsteini Helga (HFH) í -92 kg. Viðureignin var stöðvuð vegna meiðsla og Blazej tók sigur og var krýndur Íslandsmeistari.


Í síðustu viðureign dagsins mættust þeir Elmar Freyr (ÞÓR) og Magnús Kolbjörn (HFK). Þetta var æsispennandi viðureign enda mjög reyndir hnefaleikamenn. Elmar sigraði þessa viðureign á klofinni dómaraákvörðun og var því krýndur Íslandsmeistari.


Elmar Gauti var valinn hnefaleikamaður mótsins og var því afhentur Bensabikarinn til vörslu fram að næsta Íslandsmeistaramóti.


Á hverju ári er útnefndur besti boxari Íslandsmótsins og hlýtur hann Bensabikarinn, farandverðlaun tileinkuð minningu Benedikts Oddssonar sem lést fyrir aldur fram árið 2000. Bensi var í framlínu þeirra sem þá börðust fyrir lögleiðingu hnefaleika á Íslandi.

Myndir eftir Haroldas Buinauskas

Undanúrslitakeppni og fyrsti dagur ÍM var haldin í dag í WCBA i Reykjavík. Það voru fimm æsispennandi viðureignir og áhorfendur mjög spenntir að sjá hverjir kæmust áfram í úrslit. Niðurstöður viðureignanna eru eftirfarandi:

Mikael Hrafn (HR) og Viktor Zoega (Bogatýr) í -67kg U19 karla, voru fyrstir til að stíga inn í hringinn og var þetta mjög tæknileg og flott viðureign. Mikael Hrafn tók sigur að lokum eftir klofna dómaraákvörðun.


Næstir voru það Benedikt Gylfi (HFH) og Sveinn Sigurbjarnarson (ÞÓR) í -80kg U19 karla og sýndu þeir einnig fram á glæsilega tækni og voru þeir ansi jafnir. En Benedikt hafði yfirhöndina og sigraði viðureignina eftir klofna dómaraákvörðun.


Björn Snævar (HFR) og Khalid Younsi (GFR) í -80kg Elite karla, mættust svo í þriðju viðureign dagsins. Þetta var hörku viðureign og griðarlega spennandi. Hann Björn sigraði þessa viðureign á klofni dómaraákvörðun.


Í næst síðustu viðureign dagsins mættust þeir Elmar Gauti (HR) og Alexander Baranovs (Bogatýr) einnig í -80kg flokki Elite karla. Báðir stóðu sig mjög vel en hann Elmar hafði yfirhöndina og tók sigur að lokum.


Magnús Kolbjörn (HFK) og Rúnar Svavarsson (HFK) í +92kg flokki Elite karla mættust svo í síðustu viðureign dagsins. Þetta var mjög skemmtileg viðureign, enda mjög reyndir hnefaleikamenn. Magnús sigraði að þessu sinni.


Á morgun verður svo úrslitakeppni þar sem krýndir verða Íslandsmeistarar í hnefaleikum 2023. Úrslitin hefjast kl13:30 í WCBA og það er frítt inn svo við hvetjum alla til að koma að hvetja þetta flotta hnefaleikafólk! Hrikalega spennandi að sjá hverjir taka titlanna að þessu sinni!


Ársþing Hnefaleikasambands Íslands fór fram þriðjudaginn 4 apríl í húsakynnum ÍSÍ að Engjavegi 6 í Reykjavík. Samþykktar voru breytingar á reglugrein 2.2 og einnig breytingar á nýrri gjaldskrá HNÍ sem hefur verið birt á heimasíðu okkar www.hni.is. Ársreikningur og fjárhagsáætlun var samþykkt.


Breytingu á reglugrein 2.2 er eftirfarandi:


Áður:

Þátttökubók sem er í boði fyrir keppendur, er þátttökubók frá AIBA. AIBA þátttökubók geta allir þeir iðkendur fengið sem eru skráðir í félagakerfi ÍSÍ og hafa æft hjá félagi innan vébanda HNÍ í a.m.k. 6 mánuði ásamt því að vera á fimmtánda (15) ári, með a.m.k. þriggja (3) ára samfellda búsetu á Íslandi og uppfylla öll þau skilyrði sem AIBA setur hverju sinni um gjaldgengi á þeirra mótum.


Breyting (ný reglugrein):

Þátttökubók sem er í boði fyrir keppendur, er þátttökubók frá IBA. IBA þátttökubók geta allir þeir iðkendur fengið sem eru skráðir iðkendur og hafa æft hjá félagi innan vébanda HNÍ í a.m.k. 6 mánuði ásamt því að vera á tólfta (12) ári og uppfylla öll þau skilyrði sem IBA setur hverju sinni um gjaldgengi á þeirra mótum.


Ný stjórn var kjörin og er hún eftirfarandi:


Formaður: Jón Lúðvíksson

Varaformaður: Kjartan Valur Guðmundsson

Gjaldkeri: Þórarinn Hjartarson

Ritari: Sævar Ingi Rúnarsson

Meðstjórnandi: Arnór Már Grímsson



Á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar var ákveðið að varsla keppnisbóka verði nú á ábyrgð iðkenda og félaga og þarf því að sækja bækur á skrifstofu HNÍ, (milli 16-18 á fimmtudögum) . Árlega þarf að endurnýja keppnisbækur með læknisskoðun og endurnýjun frá HNÍ sem er 4000 kr samkvæmt gjaldskrá. Ef bækur eru ekki í gildi verður þátttaka á mótum ekki samþykkt, því er ábyrgð að fylgjast með gildistíma bóka, nú á herðum iðkenda.



Með kveðju,

Stjórn og framkvæmdastjóri HNÍ.


bottom of page