Hnefaleikafólk ársins
- HNÍ
- 13 hours ago
- 3 min read
Hnefaleikasamband Íslands hefur valið hnefaleikafólk ársins 2025, og að þessu sinni hlutu Nóel Freyr og Hildur Kristín Loftsdóttir titilinn. Þessi viðurkenning er veitt þeim sem hafa skarað fram úr í hnefaleikum á árinu og er valið í höndum aðildarfélaga Hnefaleikasamband Íslands..
Nóel kemur úr Hnefaleikafélags Reykjavíkur og Hildur úr Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar.
Hnefaleikamaður ársins 2025 – Nóel Freyr Ragnarsson
Nóel Freyr Ragnarsson átti virkilega sterkt keppnisár árið 2025. Hann keppti alls 13 bardaga og var skráður til þátttöku á öllum þeim mótum sem honum stóðu til boða á árinu. Hann keppti fyrir Íslands hönd á Norðurlandamóti, þar sem hann tapaði eftir jafnan og harðan bardaga gegn fulltrúa Danmerkur, sem að endingu sigraði mótið.
Á innlendum vettvangi skilaði Nóel afar eftirtektarverðum árangri. Hann var eini keppandinn sem sigraði í sínum flokki á Vorbikarmóti HNÍ, vann silfurverðlaun á Íslandsmeistaramótinu, sigraði Haustbikarmót HNÍ, og bætti við sig gullverðlaunum í A-flokki á HSK Box Cup sem og silfurverðlaunum í A-flokki á King of the Ring. Að auki vann hann glæsilegan sigur á norskum landsliðsmanni á Icebox-mótinu, sem undirstrikar stöðu hans á alþjóðlegum vettvangi.
Samhliða keppnisárangri hefur Nóel Freyr lengi verið fyrirmynd innan hnefaleika á Íslandi. Hann hefur iðkað greinina í rúm átta ár og sýnt stöðugan metnað, jafnt sem keppandi og þjálfari. Hann er handhafi gullmerkis í Diploma-hnefalíkum, hefur unnið bæði Íslandsmeistara- og bikarmeistaratitla, hlotið verðlaun í tengslum við landsliðsverkefni og tekið þátt í fjölmörgum stórum alþjóðlegum mótum og æfingaverkefnum fyrir Íslands hönd, bæði sem keppandi og fulltrúi greinarinnar.
Með árangri sínum, vinnusemi og fagmennsku hefur Nóel Freyr Ragnarsson sýnt í verki hvað þarf til að ná langt í hnefaleikum og lagt sitt af mörkum til uppbyggingar íþróttarinnar á Íslandi.
Að öllu þessu virtu ber Nóel Freyr Ragnarsson með sanni titilinn Hnefaleikamaður ársins 2025.
Til hamingju, Nóel Freyr Ragnarsson.

Hnefaleikakona ársins 2025 – Hildur
Hildur, 19 ára keppandi frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar, átti einstaklega glæsilegt keppnisár árið 2025 og sýndi í verki að hún tilheyrir fremstu röð ungra hnefaleikakvenna á alþjóðlegum vettvangi.
Árið hófst með þátttöku á Golden Girl Championship í Svíþjóð, sem er stærsta alþjóðlega kvennamót heims í áhugamannahnefaleikum. Þar keppti Hildur í fyrsta sinn í fullorðinsflokki, á hæsta reynslustigi, í A-flokki kvenna í 54 kg. Þrátt fyrir ungan aldur og takmarkaða reynslu á þessu stigi mætti hún mun reyndari keppendum og hóf mótið með öruggum sigri á sænsku keppandinni Norah Guzlander. Í undanúrslitum mætti hún Maria Elena frá Þýskalandi í afar jöfnum og hörðum bardaga og tryggði sér að lokum bronsverðlaun á þessu sterka móti.
Eftir Golden Girl stóð Hildur í markvissum æfingum með áherslu á tækni og undirbúning, áður en hún hélt til Noregs og keppti á Romerike Open, þar sem hún keppti á ný í A-flokki. Þar sýndi hún afburða sterkt og yfirvegað box og sigraði mótið. Í úrslitum mætti hún Anne Line, sem er tvöfaldur heimsmeistari í Muay Thai og var á þeim tíma í 2. sæti á heimsstyrkleikalista ONE. Hildur sigraði þann bardaga með sannfærandi hætti og tryggði sér gullverðlaun. Í kjölfarið var henni boðið að færa sig um flokk til að fylla í fyrir keppanda sem mætti ekki, sem hún þáði og sigraði þar einnig Didriku Kaur, og tryggði sér þar með annað gull á mótinu.
Á árinu sigraði Hildur jafnframt afmælismót HFH í október og lauk keppnisárinu með þátttöku á jólamóti í Noregi í desember, þar sem hún hélt áfram að sýna stöðuga framþróun og keppnisskap.
Hildur er ekki aðeins afkastamikill og metnaðarfullur keppandi, heldur einnig sterk fyrirmynd fyrir aðrar stúlkur í hnefaleikum, bæði innan félags síns og á landsvísu. Með vinnusemi, hugrekki og fagmennsku hefur hún sýnt að
hún er vel að þessum titli komin.
Að öllu þessu virtu ber Hildur með sanni titilinn Hnefaleikakona ársins 2025.






Comments