top of page
  • HNÍ

Vel heppnað Norðurlandamót í Ólympískum hnefaleikum


Helgina 31.mars til 2.apríl fóru átta keppendur ásamt þjálfurum og starfsmönnum til Gilleleje i Danmörku til að taka þátt á Norðurlandameistaramóti í Ólympískum hnefaleikum.

Ferðin heppnaðist vel og var vel tekið á móti íslenska liðinu. Mikill áhugi hefur verið hjá norðurlandaþjóðunum að fá Íslendinga með á mótið og var Ísland nú í fyrsta skiptið með fast sæti á mótinu, en hingað til hefur Ísland eingöngu fengið að sitja laus sæti á mótinu.

Mikið reynsluleysi sagði til sín á mótinu en íslensku keppendurninr voru flestir með fimm til tíu bardaga á bakinu, á meðan andstæðingar voru með 60 til 130 bardaga reynslu. Keppt var við sterkustu hnefaleikamenn á norðurlöndum og var því pressan mikil fyrir íslendinga að standa sig. Íslendingar stóðu sig vel og komu heim með sjö brons sem voru gefin fyrir 3-4 sæti og eitt silfur fyrir annað sæti. Þrátt fyrir reynsluleysi þá var vel tekið eftir góðum bardögum hjá Íslendingum og áttum við meðal skemmtilegustu bardaga mótsins.

Danir tóku vel á móti liðinu og er orðið ljóst að Ísland verður fastur liður á þessu móti næstu ár. Komin er pressa á Hnefaleikasambandið að taka að sér að vera mótshaldari fyrir þetta mót á næstu þremur árum og hafa allar norðurlandaþjóðirnar boðist til að aðstoða við uppsetningu slíks móts. Þetta er stærsta mót norðurlandaþjóðanna þar sem sterkustu keppendur þeirra þjóða keppa.

Margrét Guðrún Svavarsdóttir keppti á móti svíjameistara Sabrina Homström á úrslitadegi í -75kg. elite kvenna. Margrét stóð sig vel eftir góða baráttu og sýndi Sabrinu alveg hvað í henni býr. Úrslit dómar var einhljóma Sabrinu í vil og kom Margrét því heim með silfrið. Margrét var með sex leiki í reynslubankanum fyrir mót en Sabrína er með töluvert meiri reynslu.

Viðureignir á undanúrslitakvöldinu fóru þannig:

Fyrstur til að keppa fyrir hönd Íslands var Sólon Ísfeld Rögnvaldsson sem keppti í -60kg. flokki ungmenna karla. Sólon er með fimm leiki á bakinu og keppti á móti Asseme Nouali frá Finnlandi sem er með 73 bardaga skráða. Það virtist koma Asseme á óvart hversu megnugur Sólon var, en Asseme var reynslumeiri og sterkari og ákvað þjálfari að stoppa bardagann. Asseme vann Norðurlandameistaratitilinn í sínum þyngdaflokki á úrslitakvöldinu. Sólon kom heim með bronsverðlaun.

Næst til að keppa var Ingibjörg Helga Arnþórsdóttir keppti í -54kg flokki elite kvenna. Ingibjörg var íslandsmeistari árið 2016 og var með sex leiki í reynslubankanum fyrir norðurlandamótið. Ingibjörg hefur verið að glíma við meiðsli og hefur því ekki getað keppt sem skildi en hún lét vel í sér heyra á mótinu þar sem hún keppti á móti Finnanum Marjut Lausti. Marjut var með 152 keppnir á bakinu og er tvöfaldur Finnlandsmeistari í sínum þyngdaflokki fyrir keppni og vann svo Norðurlandameistaratitilinn á mótinu. Ingibjörg átti góðan bardaga og voru þær nokkuð jafnar í leik þrátt fyrir að dómarar hafi einróma gefið Marjut sigurinn. Ingibjörg kom því heim með bronsverðlaun.

Margrét Á. Þorsteinsdóttir keppti í -69kg flokki elite kvenna og tók á móti Lena Bertelsen frá Danmörku. Margrét var með þrettán skráða leiki fyrir mót og er Íslandsmeistari 2017 í sínum þyngdarflokki. Margrét átti góðan og skemmtilegan leik á móti Lenu sem er einn harðasti andstæðingur sem hún hefur keppt á móti í sínum þyngdaflokki. Úrslitin voru að Lena Bertelsen vann bardagann eftir samhljóma ákvörðun dómara og kom því Margrét heim með bronsið.

Bárður Lárusson keppti í -60kg flokki elite karla á móti dananum Frederik Lundgaard Jensen. Bárður er ekki búinn að stunda hnefaleika í langan tíma en hann hefur staðið sig mjög vel og er rísandi stjarna innan hnefaleikahreifingarinnar. Bárður vann til bronsverðlauna á Íslandsmeistaramótinu í febrúar og var með sex leiki á bakinu fyrir viðureignina á norðurlandamótinu. Mótherji Bárðar, Frederik er með 115 leiki á bakinu og vann bardagann. Bárður kom því heim með brons.

Oliver Flodin frá Svíþjóð er með sterkustu hnefaleikaköppum Svíðþjóðar. Jafet Örn Þorsteinsson fékk að berjast við hann í ótrúlega skemmtilegum bardaga þar sem oft var tvísýnt hvor aðili myndi vinna. Jafet var með tíu leiki á bakinu fyrir keppni og vann Íslandsmeistaratitil í sínum þyngdaflokki sem er -75 kg flokki elite karla. Úrslit fóru svo að dómarar voru ekki sammála um niðurstöðu og vann Oliver með klofinni ákvörðun dómara. Oliver gat ekki keppt daginn eftir og náði því ekki að keppa um gullverðlaunin vegna meiðsla. Jafet kom heim með brons.

Íslandsmeistarinn Kristján Ingi Kristjánsson keppti í -91 kg flokki karla í mjög skemmtilegum leik á móti Armintas Dluckys frá Noregi. Armintas er reynslumikill og átti hann í erfiðleikum með Kristján sem var eingöngu með níu leiki á bakinu. Kristján tapaði með einróma ákvörðun dómara og kemur því heim með brons en Armintas vann norðurlandameistaratitilinn á mótinu.

Síðastur upp Íslandsmeistari -64 kg flokki ungmenna, Bjarni Þór Benediktsson sem tók á móti Roberto Bengtsson frá Svíðþjóð sem er með yfir 50 bardaga í reynslubankanum. Bjarni var að keppa sinn sjöunda bardaga á ferlinum en hann hefur staðið sig afburðar vel á mótum. Bjarni var tæknilega sterkur en Roberto var fljótur að lesa hann og náði þeim yfirburðum að þjálfari Bjarna ákvað að stöðva leik í fyrstu lotu. Bjarni kom því heim með brons eftir vel heppnaða helgi.

Með kveðju,

Hnefaleikasamband Íslands

Keppnishópur og þjálfarar með verðlaunagripi sína eftir vel heppnað mót.

Keppnissaðstaðan í Gilleleje

Margrét Guðrún Svavarsdóttir með silfur ásamt þjálfara sínum Björn Snævar Björnsson

Save


bottom of page