Síðastliðinn laugardag stóð Davíð Rúnar Bjarnason, yfirþjálfari Hnefaleikafélags Reykjavíkur, fyrir stórglæsilegu hnefaleikamót í Kaplakrika, Icebox. Margt af efnilegasta hnefaleikafólki Íslands tók þátt á mótinu og voru í heildina sextán glæsilegar viðureignir gegn mótherjum frá sex mismunandi norskum félögum, Romerike BK, Jessheim BK, Moss BK, Sovner BK, Ørnulf IF og SP09 BK.
Seinni helmingi mótsins var svo sjónvarpað, í fyrsta sinn í sögu hnefaleika á Íslandi, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og voru Dóri DNA og Kristín Sif hnefaleikakona fengin til að lýsa viðureignunum. Gríðarleg stemning myndaðist í húsinu þegar að tónlistarmenn á borð við Birgi Hákon, Bubba Morthens og Daniil tóku lagið á sama tíma og þeir gengu inn salinn með íslenska hnefaleika fólkinu.
Að móti loknu voru veittir veglegir vinningar. Þeir Hafþór Magnússon (HFH) og Bolan Laporlaw (SP09 BK) hlutu verðlaun fyrir flottasta Junior bardaga kvöldins og þeir Hilmir Örn Ólafsson og Magnus Nygard (Stovner BK) hlutu verðlaun fyrir flottasta Elite bardaga kvöldins. Að lokum þá varð Nicolaj Ljuan Foss (Romerike BK) valin hnefaleikamaður kvöldsins eftir gríðarlega flottan bardaga við Hlyn Torfa Rúnarsson (HR). Að launum hlaut Nicolaj stórglæsilegt Icebox belti sem engin önnur en Kali Reis veitti honum. Kali sem kemur frá Bandaríkjunum hefur átt mjög farsælann feril í hnefaleikum og hlotið meðal annars heimsmeistaratitla í tveimur mismunandi þyngdarflokkum.
Þetta var allra stærsta og flottasta hnefaleikamót sem hefur verið haldið á Íslandi til þessa og eiga Davíð Rúnar og allir þeir sem komu að mótinu mikið hrós skilið. Mótið markar tímamót í ólympískum hnefaleikum og hlakkar okkur til að sjá íþróttina halda áfram að vaxa og stækka.
Hér fyrir neðan eru svo niðurstöður viðureignanna:
Fyrri hópur:
Björgvin Snær Magnússon (HR) vs. Viktor Zoega (Bogatýr) kepptu í -71 kg flokki Youth karla. Björgvin Snær tók sigur að dómaraákvörðun.
Anton Smári (HR) vs Janis Butkevics (Bogatýr) kepptu í -80kg flokki Elite karla. Janis tók sigur að dómaraákvörðun.
Mantas Kirsis (Bogatýr) vs Tony Vu (Drammen BK) kepptu í -80kg flokki Elite karla.
Mantas tók sigur að dómaraákvörðun.
Teitur Þór Ólafsson (HR) vs Ilias Mohamed Laksiri (Romerike BK) kepptu í -71kg flokki Youth karla. Teitur Þór tók sigur að dómaraákvörðun.
Hlynur Torfi Rúnarsson (HR) vs Nicolaj Ljuan Foss (Romerike BK) kepptu í -75 kg flokki Elite karla. Nicolaj tók sigur að dómaraákvörðun.
Daníel Hans Erlendsson (HFH) vs Tomas Griauslis (Bogatýr) kepptu í -75kg flokki Elite karla. Tomas tók sigur að dómaraákvörðun.
Gabriel Warén (HR) vs Patrik Steinsvik (Jessheim BK) kepptu í -63,5kg flokki Junior karla. Gabriel tók sigur að dómaraákvörðun.
Ísak Guðnason (HFK) vs Malik Vitaev (Jessheim BK) kepptu í -67 kg flokki Junior karla. Ísak Guðnason tók sigur eftir að handklæði var hent inn af þjálfara Malik.
Raivis Katens (Bogatýr) vs Ibrahim Said Mukthar (Drammen BK) kepptu í -80kg Elite karla.
Raivis tók sigur að dómaraákvörðun.
Seinni hópur
Erika Nótt Einarsdóttir (HR) vs Laven Soufi (Stovner BK) kepptu í -54kg flokki Junior kvenna. Erika tók sigur að dómaraákvörðun.
Hafþór Magnússon (HFH) vs Bolan Laporlaw (SP09 BK) kepptu í -63,5kg flokki Youth karla. Bolan tók sigur að dómaraákvörðun.
Mikael Hrafn Helgason (HR) vs Alkhazur Magadanhov (Moss BK) kepptu í -67kg flokki Youth karla. Alkhazur tók sigur að dómaraákvörðun.
Aleksandr Baranovs (Bogatýr) vs Brooklyn Andersen (SP09 BK) kepptu í -80kg flokki Elite karla. Brooklyn tók sigur að dómaraákvörðun.
Hilmir Örn Ólafsson (HR) vs. Magnus Nygard (Stovner BK) kepptu í -67kg flokki Elite karla. Hilmir tók sigur að dómaraákvörðun.
Emin Kadri Eminsson (HFK) vs Nicolaj Møller (Skien BK) kepptu í -67 kg flokki Elite karla. Viðureignin var stöðvuð vegna meiðsla og Emin tók sigur.
Magnús Kolbjörn Eiríksson (HFK) vs Brage Lange (Ørnulf IF) kepptu í +92kg flokki Elite karla. Brage tók sigur að dómaraákvörðun.
Comments