top of page
Search

Íslandsmeistaramótið í hnefaleikum fór fram um helgina

  • HNÍ
  • Apr 15
  • 3 min read

Íslandsmeistaramótið í hnefaleikum fór fram dagana 12 - 13 apríl. Undanúrslitin fóru fram á laugardaginn og var svo keppt til úrslita á sunnudaginn þar sem sjö viðureignir voru á dagskrá. Mótið fór fram í húsakynnum World Class Boxing Academy í Kringlunni. Mótið var í lifandi streymi á úrslitadegi og voru um hundrað manns sem fylgdust með í beinni útsendingu ásamt fullum sal áhorfenda. Viðureignirnar voru flestar jafnar og spennandi en Bogatýr stóð upp úr með fullt hús og fjóra Íslandsmeistaratitla. Eftirsóttasti hnefaleikatitill landsins, Bensabikarinn, var veittur fyrir bestu frammistöðuna á mótinu en það var Ísak Guðnason frá Hnefaleikafélagi Kópavogs sem vann bikarinn í ár.






Artem Siurkov (Bogatýr) sigraði Arnar Jaka (HFK)


Artem Siurkov hefur verið virkilega öflugur upp á síðkastið en hann kemur inn í Íslandsmeistaramótið með sterkan vind í seglunum eftir að hafa verið valinn besti hnefaleikamaðurinn á HFH open í mars. Artem sigraði Arnar Jaka á sunnudaginn með einróma dómaraákvörðun og hóf sigurgönguna fyrir Bogatýr sem áttu frábært mót.





Mihail Fedorets (Bogatýr) sigraði Sölva Stein (HFK)


Mihail Fedorets tók æfingafélaga sinn frá fyrsta bardaga til fyrirmyndar og sigraði einnig með einróma dómaraákvörðun og var þá annar Íslandsmeistaratitill Bogatýs í höfn. Mihail var mjög agaður og skipulagður í bardaganum og tókst vel að spila sinn leik í hringnum.





Viktor Zoega (Bogatýr) sigraði Nóel Frey (Hnefaleikafélag Reykjavíkur) með klofinni dómaraákvörðun


Þriðja viðureign úrslitadagsins var stjörnuviðureign milli Viktors Zoega, fyrrum Icebox-meistara og Nóels sem hefur sótt silfur á Norðurlandameistaramótinu. Viðureignin var mjög jöfn og áttu áhorfendur og dómarar erfitt með að sammælast um hvor þeirra hafði hlotið sigur úr býtum. En dómarateymið dæmdi sigurinn til Viktors með þremur atkvæðum gegn tveimur.





Ísak Guðnason (HFK) sigraði Benedikt Gylfa (HFH) með einróma dómaraákvörðun og vann Bensabikarinn


Strákarnir í Bogatýr fengu loksins pásu og var þá komið að spennandi viðureign milli Ísaks og Benedikts. Þeir áttu báðir viðureign deginum áður og höfðu unnið sér fyrir sínum stað í úrslitunum -75 kg flokksins með blóði og svita. Ísak átti harm að hefna gegn Benedikt síðan á Bikarmótinu í vor en Ísak hreppti Íslandsmeistaratitilinn eftir virkilega vinnusama frammistöðu gegn Benedikt á sunnudaginn.


Með frammistöðunni sinni vann Ísak einnig Bensabikarinn sem er fyrir flestum talinn stærsti titill sem hægt er að vinna á Íslandi!



Elmar Gauti (HR) stöðvaði Demario Anderson (HFK)


Reynsluboltinn Elmar Gauti sneri til baka í hringinn gegn Demario eftir að hafa verið fjarverandi vegna meiðsla. Elmar er flestum kunnugur en hann er virkilega reyndur bardagamaður og mætti Demario Anderson sem hefur tekist að sækja óvænt úrslit á hnefaleikamótum fyrr á árinu. Reynslumunurinn lét á sér bera þegar leið á bardagann og sá hringdómarinn sig knúinn til að stöðva bardagann í annarri lotu.





Gabríel Marínó sigraði Þorstein Sigurðsson með einróma dómaraákvörðun í -85 kg flokki.


Það var komið að Bogatýr aftur og hérna kórónuðu þeir fullkominn dag á Íslandsmeistaramótinu. Gabríel Maríno var öruggur í hringnum og ætlaði sér greinilega að sækja titilinn. Eftir þrjár lotur voru allir dómarar sammála um öruggan sigur Gabríels í bláa horninu.





Elmar Freyr (Þór) sigraði Ágúst Davíðsson (Þór) með einróma dómaraákvörðun í +90 kg flokknum


Æfingafélagarnir frá Þór mættust í síðasta bardaga dagsins. Viðureignin var skemmtilega jöfn og tæknileg en það var ekki að sjá að vinirnir ætluðu að gefa eftir og eiga rólyndisstund í hringnum. Bardaginn fór allar þrjár loturnar og var spenna í loftinu þegar kynnir dagsins tilkynnti um niðurstöðuna. Það var þó að lokum Elmar Freyr sem landaði titlinum.





Fleiri myndir frá mótinu má svo finna hér





 
 
 

Comentários


Hnefaleikasamband Íslands

Engjavegur 6, 104 Reykjavík 

Iceland

KT. 640806-0950 

hni@hni.is 

  • YouTube
  • Instagram
  • Facebook
bottom of page