• HNÍ

Ársþing Hnefaleikasambands Íslands fór fram fimmtudaginn 30. maí 2019 í húsakynnum ÍSÍ að Engateigi í Reykjavík. Engar breytingar lágu fyrir fund í regluverki HNÍ. Ný stjórn var kjörin og var Ásdís Rósa Gunnarsdóttir endurkjörin formaður sambandsins. Með henni voru endurkjörin í stjórn Árni Stefán Ásgeirsson (varafomaður) og Áslaug Rós Guðmundsdóttir (ritari). Nýr gjaldkeri var kjörin Birna Árnadóttir og þar með hætti Jónas Heiðar Birgisson sem stjórnarmaður og gjaldkeri HNÍ frá upphafi. Stjórn HNÍ þakkar honum góð störf og gott samstarf undanfarin ár. Meðstjórnendur voru kosin Sólveig Harpa Helgadóttir, Rúnar Svavarsson og Steinunn Inga Sigurðardóttir. Varamenn voru kosin Ingólfur Þór Tómasson, Máni Borgarsson og Sigríður Birna Bjarnadóttir.

Engar breytingar voru gerðar á gjaldskrá HNÍ. Ársreikningur og fjárhagsáætlun var samþykkt.

Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir úr framkvæmdastjórn ÍSÍ. Kolbrún Hrund ávarpaði þingið og bar þingfulltrúum kveðjur frá stjórn og starfsfólki ÍSÍ ásamt því að minna á helstu verkefni sem framundan eru hjá ÍSÍ.


Íslandmeistaramót í Hnefaleikum 2019 var haldið í nýjum húsakynnum Hnefaleikafélags Reykjaness nú fyrr í kvöld.

Ein undanviðureign var á mótinu og var hún haldin kl.11 eftir að dregið hafði verið í flokkinn. Þar drógust saman Fannar Þór Ragnarsson frá HR og Ásgrímur Egilsson frá HFK í -64kg flokki karla. Ágrímur stóð uppi sem sigurvegari á einróma dómaraákvörðun og fór því áfram í úrslit.

Úrslit mótsins fóru fram kl.18.

Fyrst var keppt í -81kg ungmennaflokki karla. Þar öttu kappi Karl Ívar Alfreðsson frá HAK og David Sienda frá HFR. David sigraði þar í öruggum leik.

Þá fór fram leikur í -60kg flokki kvenna. Þar fór Guðný Bernhard frá Æsi gegn Tinnu Von Waage frá HFK. Guðný sigraði þar á einróma dómaraákvörðun eftir harða rimmu.

Næst var keppt í -75kg flokki karla. Þar keppti Bjarni Ottósson frá HR gegn Arnóri Má Grímssyni frá HFH. Eftir mikinn dans fór Arnór með sigur á einróma dómaraákvörðun.

Fyrsti leikur eftir hlé var -75kg flokkur kvenna. Þar öttu kappi Kristín Sif Björgvinsdóttir frá HR og Hildur Ósk Indriðadóttir frá HFR. Hildur kom mjög sterk inn og sýndi að hún á heima í hringnum en þó ekki nóg til að vinna hina feykisterku Kristínu Sif sem stóð uppi sem sigurvegari á einróma dómaraákvörðun.

Næstsíðasti leikur mótsins var í -81kg flokki karla. Þar keppti Elmar Gauti Halldórsson frá HR gegn Hróbjarti Trausta Árnasyni frá HFK. Leikurinn var harður og feykijafn en sigurinn féll til Elmars Gauta á klofinni dómaraákvörðun.

Lokaleikur mótsins var síðan úrslit í -64kg flokki karla frá því um morguninn. Alexander Puchkov frá HR fór þar gegn Ásgrími Egilssyni frá HFK sem sigraði undanleikinn um morguninn. Leikurinn var hraður og skemmtilegur og að lokum fór sigurinn til Ásgríms á einróma dómaraákvörðun.

Í lok móts var bæði valinn leikur mótsins og Bensabikarinn var afhentur þeim boxara sem talinn var hafa skarað fram úr á mótinu. Lokaleikur kvöldsins í -64 kg fl karla var valinn leikur mótsins og Arnór Már Grímsson fékk afhendan Bensabikarinn til varðveislu.

#ÍM2019 #Hnefaleikar #HNÍ


Næstkomandi laugardag 16. mars mun HNÍ í samstarfi við HFK halda minningarmót til heiðurs 100 ára afmæli Guðmundar Arasonar. Mótið verður haldið í húsakynnum HFK að Smiðjuvegi 28, Kópavogi. Húsið opnar kl.15 og leikar hefjast kl.16. Á undan hefðbundnum leikjum munu gamlir nemendur Guðmundar sýna hnefaleikastíl Guðmundar í hringnum og í lok leika verður afhentur farandbikar fyrir besta boxara mótsins. Guðmundur stundaði hnefaleika frá 14 til 85 ára. Hann barðist ötullega fyrir lögleiðingu á hnefaleikum í 45 ár. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta og kynnast sögu þessa merka manns.


FRÉTTIR

 HNÍ - Hnefaleikasamband Íslands

Icelandic Boxing Federation

Engjavegur 6  |  104 Reykjavík  |  Iceland

KT. 640806-0950  |  hni@hni.is

  • Facebook Social Icon
  • YouTube Social  Icon
  • Instagram Social Icon