top of page
  • HNÍ

Hnefaleikafólk ársins 2017


Hnefaleikafólk ársins 2017 hefur verið valið í kosningu allra félaga innan vébanda HNÍ. Til lukku Margrét og Jafet.

Margrét Guðrún Svavarsdóttir

Margrét er 19 ára og hefur æft hnefaleika frá árinu 2012. Margrét hóf feril sinn í diplomahnefaleikum og lauk öllum þrepum diplomastigans á tveimur árum. Hún hefur unnið til gullverðlauna á erlendum stórmótum, þar á meðal á Hvidovre Box Cup 2014. Á árinu hefur Margrét unnið allar innlendar viðureignir sínar, þar á meðal er hún núverandi Íslandsmeistari í -75kg flokki kvenna. Á Norðurlandameistaramótinu í Danmörku í ár fékk hún silfrið í sínum flokki eftir jafnan úrslitaleik. Margrét er fyrirmyndar íþróttakona, innan og utan vallar. Hún sinnir sjálfboðaliðastörfum fyrir sambandið og sækir námskeið á þeirra vegum.

Jafet Örn Þorsteinsson

Jafet er 28 ára og hefur æft hnefaleika frá því hann var unglingur, fyrst í Svíþjóð og seinna hér á landi. Jafet hefur verið mjög virkur á árinu og byrjaði árið með að tryggja sér Íslandsmeistaratitillinn í fjórða sinn. Jafet var valinn hnefaleikamaður Íslandsmeistaramótsins í þriðja sinn í röð og hlaut fyrir vikið Bensabikarinn til eignar. Hann keppti á fjórum stórmótum erlendis á árinu. Í apríl keppti hann fyrir hönd Íslands á Norðurlandamótinu enn þar tapaði hann á klofinni dómaraákvörðun á móti Oliver Flodin sem mun keppa fyrir Svíþjóð á Ólympíuleikunum 2020. Því næst keppti hann í júní á Haringey mótinu í Englandi, (430 keppendur skráðir). Þar keppti Jafet í A klass flokki en slasaðist í annarri lotu eftir skalla í fyrstu viðureign og fór ekki áfram á mótinu. Því næst keppti Jafet í nóvember á ACBC í Gautaborg (450 keppendur skráðir) en þar tapaði hann á klofinni dómaraákvörðun í fyrstu viðureign á móti sigurvegara mótsins eftir mjög jafnan og skemmtilegan bardaga. Jafet keppti síðan fyrir hönd Íslands í nóvember á Tammer Tournement í Finnlandi enn þar datt Jafet út í fyrstu viðureign á móti sigurvegara mótsins frá því í fyrra en var landi sínu til sóma í stærsta flokki mótsins.

bottom of page