top of page

HNEFALEIKAR

Hnefaleikar á einhverju formi hafa verið til síðan á tímum Súmeranna en núverandi regluverk var skráð árið 1867 í London og er kallað Marquess of Queensberry reglurnar. Þær reglur voru þó eingöngu tólf og gengu út á að búa til umgjörð kringum íþróttaviðburðinn. Hnefaleikar urðu síðan hluti af Ólympíuleikunum árið 1904.

Á Íslandi eru í boði tvö keppnisform hnefaleika; diplomahnefaleikar og ólympískir hnefaleikar.

Diplomahnefaleikar

Diplomahnefaleikar eða byrjendahnefaleikar eru mildari útgáfa af hnefaleikaíþróttinni með sérstökum reglum. Diplomaviðureign er ekki dæmd eftir því hversu oft maður hittir andstæðinginn - það er stranglega bannað að slá fast - heldur er í staðinn dæmt eftir tækni og framferði hnefaleikarans í hringnum. Í diplomaviðureign má ekki undir neinum kringumstæðum felast harka og keppendur eru ávítaðir ef þeir setja of mikinn kraft í höggin. Dæmt er á 5 stiga skala, þar sem 3 stig samsvara hæfilegri kunnáttu og hinn fullkomni boxari fengi 5 stig. Það sem iðkendur læra er:

 

  • að boxa mjúkt og tæknilega

  • að sýna kunnáttu sína

  • að aðlagast að andstæðingnum

 

Hver viðureign er 3 lotur og dæmdar af 3 stigadómurum og 1 hringdómara. Ef að keppanda tekst að safna 27 stigum (3 lotur x 3 dómarar x 3 stig) eða meira mun sá hinn sami hljóta viðurkenningu fyrir kunnáttu sína og útskrifast sem fullgildur hnefaleikari.

Ólympískir hnefaleikar

Viðureign í ólympískum hnefaleikum fer fram í hnefaleikahring milli tveggja einstaklinga. Sá sem sigrar gerir það á einn af eftirfarandi hátt; á stigum, andstæðingur gefst upp, hringdómari stöðvar leikinn, útilokun vegna brots, tæknilegt rothögg, tæknilegt rothögg vegna meiðsla, rothögg og walkover (andstæðingur mætir ekki í hring). Viðureign hjá Elite körlum og konum er 3 lotur og 3 mínútur hver lota með 1 mínútu hvíld á milli.

Lotur eru dæmdar af 3 stigadómurum sem valdir eru af handahófi af 5 dómara vali. Hver lota er skoruð. Keppandi sem sigrar lotu fær 10 stig og andstæðingurinn fær 6-9 stig, allt eftir því hvernig hann stóð sig. Ef keppandi fær aðvörun þá er stig dregið frá lokaskori hans. Í hringnum með keppendum er hringdómarinn. Hans aðalhlutverk er að huga að öryggi keppenda inni í hringnum og sjá til þess að keppendur fylgi leikreglum.

Eftirfarandi eru þyngdarflokkar í elite flokkum.

 

Karlar: 46-48 kg, 48-51 kg, 51-54 kg, 54-57 kg, 57-60 kg, 60-63,5 kg, 63,5-67 kg, 67-71 kg, 71-75 kg, 75-80 kg, 80-86 kg, 86-92 kg, 92+ kg
Konur: 45-48 kg, 48-50 kg, 50-52 kg, 52-54 kg, 54-57 kg, 57-60 kg, 60-63 kg, 63-66 kg, 66-70 kg, 70-75 kg, 75-81 kg, 81+ kg

bottom of page